SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingibjörg Benediktsdóttir

Ingibjörg Benediktsdóttir er fædd 11. ágúst 1885 á Bergsstöðum í Hallárdal, Austur-Húnavatnssýslu, og bjó þar til tvítugsaldurs.

Ingibjörg lauk prófi frá gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1909 og kenndi meðal annars við kvennaskólann á Blönduósi og síðar barnaskólann í Reykjavík.

Árið 1917 giftist Ingibjörg Steinþóri Guðmundssyni og eignuðust þau fjögur börn. Þau bjuggu á Akureyri til ársins 1933 en fluttust þá til Reykjavíkur. 

Ingibjörg tók virkan þátt í félagsmálum, meðal annars innan góðtemplarahreyfingarinnar. Hún var í Kvenréttindafélagi Íslands og um skeið í stjórn þess. Hún flutti erindi á fundum og í útvarpi og skrifaði smásögur, ljóð og ritgerðir sem birtust í blöðum og tímaritum. Hún var í tvö ár ritstjóri tímaritsins Nýjar kvöldvökur sem kom út á Akureyri.

Tvær ljóðabækur sendi Ingibjörg frá sér, Frá afdal – til Aðalstrætis (1938) og Horft yfir sjónarsviðið (1946).

Ingibjörg lést í Reykjavík 9. október 1953.

Jóhannes úr Kötlum orti um hana minningarljóð sem birtist í Þjóðviljanum þann 20. október 1953.

 

Þitt orð var heitt

Hve ljúft og gott að sofna í sælli trú
á sigur þess er firrir lífið grandi.
Ég veit að einmitt þannig kvaddir þú
— þín þrá var eins og morgunn yfir landi.
Og ég sé best í húmi haustsins nú
hve heiðríkur og fagur var þinn andi.

Þitt orð var heitt — því hjartað sló þar með
sem harpa stillt á gleði allra tíða.
Í bliki augans bjó þitt mikla geð
og brann af kvöl með öllum þeim sem líða.
Og þinni ást það yfirbragð var léð
sem Íslands bestu dætur þykir prýða.

Ég kveð þig eins og frjálsa söngvasveit
á sumardaginn fyrsta úti í haga.
Hvert vorsins fuglar fljúga enginn veit
— en framtíðin er þeirra mikla saga.
Þú bæði komst og fórst sem fyrirheit
og fyrirheitið lifir alla daga.

 

Heimild:

Helga Kress. 2001. „Ingibjörg Benediktsdóttir 1885-1953“, bls. 208. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin er fengin af vefsíðu um Jóhannes úr Kötlum.


Ritaskrá

  • 1946  Horft yfir sjónarsviðið
  • 1938  Frá afdal til Aðalstrætis