SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hildur Eir Bolladóttir

Hildur Eir Bolladóttir er fædd í Laufási við Eyjafjörð þann 25.apríl árið 1978. Foreldrar hennar eru Matthildur Jónsdóttir og Bolli Þórir Gústavsson sem er látinn.

Hildur ólst upp í Laufási en flutti um fermingu með foreldrum sínum að Hólum í Hjaltadal. Hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri vorið 1999 og kenndi í framhaldinu í einn vetur við Brekkuskóla á Akureyri uns hún innritaðist í guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk þar Cand theol prófi vorið 2005. Hildur Eir hefur verið starfandi prestur við Laugarneskirkju í Reykjavík og Akureyrarkirkju þar sem hún er enn við störf.

Hildur Eir hefur verið virkur pistlahöfundur síðustu ár og hafa skrif hennar birst á hinum ýmsu net og prentmiðlum. Auk þess hafði hún um nokkurra ára skeið umsjón með sjónvarpsþættinum Milli himins og jarðar á sjónvarpsstöðinni N4 en í þeim þáttum ræddi Hildur við fólk um margskonar lífsreynslu og nýtti þar þekkingu sína úr preststarfinu til að eiga við fólkið djúp og gefandi samtöl.

Hildur Eir gaf út bókina Hugrekki - sögu af kvíða árið 2016 sem hlaut lofsamlega dóma og var tilefnd til Fjöruverðlauna. Nýverið sendi hún svo frá sér ljóðabókina Líkn.

Ljóð úr bókinni Líkn:

Yfir steinhlaðinn vegg
berst þögnin,
saga
þjáningar
dauða
og upprisu.
Í þessum garði
fá allir
merkta gröf
klædda greni
og furu,
gæfumenn
og ógæfumenn
hvíla í móðurskauti
moldar


Ritaskrá

  • 2022  Meinvarp
  • 2019  Líkn
  • 2016  Hugrekki - saga af kvíða

Verðlaun og viðurkenningar

Tilnefning

  • 2017 Fjöruverðlaun, bókmenntaverðlaun kvenna: Hugrekki - saga af kvíða