SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Herdís Andrésdóttir

Herdís Andrésdóttir, tvíburasystir Ólínu Andrésdóttur, er fædd í Flatey á Breiðafirði 13. júní 1858. Þriggja ára gömul missti hún föður sinn sem drukknaði þegar báturinn Snarfari fórst með allri áhöfn. Fór Herdís þá í fóstur til Brynjólfs Bogasonar og Herdísar konu hans sem hún hét í höfuðið á. Það var mikið áfall fyrir hana að skilja við móður sína og systkini. Herdís fór ung að vinna fyrir sér og átti ekki kost á skólagöngu. Árið 1880 giftist hún Jóni Einari Jónssyni stúdent. Voru þau í húsmennsku á ýmsum stöðum við Breiðafjörð, eignuðust sjö börn, en þrjú lifðu. Eftir lát Jóns árið 1889 bjó Herdís lengstum í Bæ í Króksfirði hjá mágkonu sinni. Þær fluttust til Reykjavíkur árið 1902 og þar átti Herdís heima síðan. Hún lést á heimili dóttur sinnar 21. apríl 1939.

Leiðir Herdísar og Ólínu lágu ekki saman aftur fyrr en í Reykjavík þegar þær voru komnar um sextugt. Þær urðu á efri árum þjóðkunnar fyrir kvæði sín, fróðleik og frásagnir, og eru oftast nefndar saman. Þær og Theodora Thoroddsen voru systkinabörn og umgengust þær mikið í Reykjavík. Allar voru þær virkar í Lestrarfélagi kvenna Reykjavíkur og birtu kvæði og frásagnir í Mánaðarriti þess. Árið 1924 gáfu þær út Ljóðmæli á eigin kostnað, og aðra útgáfu aukna 1930. Að þeim látnum safnaði dóttursonur Herdísar, séra Jón Thorarensen, óbirtum kvæðum þeirra saman. Voru þau prentuð í þriðju útgáfu ljóðmælanna sem kom út stóraukin árið 1976. Alls hafa ljóðmæli þeirra systra komið út fimm sinnum.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Herdís Andrésdóttir“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, bls. 142.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin er fengin af bloggsíðu Ellu, afkomanda Herdísar sjá hér.


Ritaskrá

  • 1976 Ljóðmæli
  • 1930 Ljóðmæli
  • 1924 Ljóðmæli

Tengt efni