SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Heiður Baldursdóttir

Heiður Baldursdóttir fæddist 31. maí 1958, dóttir Baldurs Ragnarsonar, íslenskukennara við Menntaskólann við Hamrahlíð, og Þóreyjar Mjallhvítar Kolbeins, yfirkennara við Þroskaþjálfaskóla Íslands.

Heiður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð átján ára gömul og árið 1990 lauk hún kennaranámi og B.A. prófi í sérkennslufræðum. Hún hóf meistaranám í sérkennslufræðum í Bandaríkjunum en entist ekki aldur til að ljúka því.

Heiður kenndi í fimm ár við Safamýrarskóla og tók virkan þátt í félagstörfum, bæði í verkalýðsmálum og á sviði kennslumála. Hún var í trúnaðarmannaráði Starfsmannafélagsins Sóknar 1978-79, í stjórn Kennarafélags Reykjavíkur 1985-1986, í menntamálanefnd Þroskahjálpar 1987-1989 og í skólamálaráði Kennarasambands Íslands 1987-1990. Þessu öllu samfara gat Heiður sér gott orð sem rithöfundur; hún samdi sex barna- og unglingabækur og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Álagadalurinn árið 1989.

Heiður lést eftir erfið veikindi 28. maí 1993, aðeins tæplega 35 ára gömul. Hún lét eftir sig eiginmann, Ómar Sævar Harðarson stjórnmálafræðing, og dæturnar tvær, Brynhildi, f. 31. ágúst 1978 og Þóreyju Mjallhvíti, f. 25 ágúst 1980.

Heimild: Greinasafn Mbl.

Myndin er sótt á vefsíðu Stundarinnar.


Ritaskrá

  • 2002 Sögurnar um Evu Klöru
  • 1993 Galdur steinsins
  • 1992 Háskaleikur
  • 1991 Leyndarmál gamla hússins
  • 1990 Leitin að demantanum eina
  • 1989 Álagadalur

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1989 íslensku barnabókaverðlaunin: Álagadalur