SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hallfríður Ingimundardóttir

Hallfríður fæddist 28. júlí 1951, dóttir Jóhönnu B. Þórarinsdóttur sem lengi var starfandi ljósmóðir og Ingimundar B. Halldórssonar. Hún ólst upp á Patreksfirði en fjölskyldan flutti síðan til Hafnarfjarðar árið 1967. Hallfríður lauk BA-prófi í íslensku frá HÍ 1981 og lokaverkefni hennar er um verk Ástu Sigurðardóttur. Hún lauk síðan kennaranámi. Hallfríður hefur skrifað barnabækur og kennsluefni og sent frá sér ljóðabækur. Hún á fjögur börn og býr í Reykjavík. Síðustu ár hefur hún ort ljóð í gegnum ljósmyndavélina.

Í ritdómi um ljóðabók Hallfríðar frá 1992: 

Á undarlegri strönd geymir ýmis fyrirheit um góðan skáldskap - það sanna einstök ljóð. Margar náttúrumyndir virðast geyma tákn sem sum hver eru margræð. Ströndin undarlega vísar auðvitað bæði til lífs og dauða en býr yfír miklu víðari almennri skírskotun sem er samt of sundurlaus fyrir smekk þessa lesanda. Þrátt fyrir að rauði þráður bókarinnar sé illsjáanlegur er samt hægt að fullyrða að hér sé á ferðinni skáldskapur sem kemur manni við, bæði efnislega og ekki síður listrænt.“

Sami gagnrýnandi fjallaði í ritdómi í Morgunblaðinu um áfergju og ástarhita í fyrstu ljóðabók Hallfríðar, Í skini brámána (1991) sem tileinkuð er konum sem elska of mikið: 

„Ástleitnin er afar nálæg í fyrri hluta bókarinnar. Holdlegur aðdráttur spennir sig fram í tilhöggnum stílnum. Efnið er sett fram í brotkenndum myndum, sem hvorki eru klúrar né væmnar, en skila oftast sannfærandi tilfínningu í huga lesandans:

lestu mér blóm

í morgundögginni

gleymmérei

augna þinna

blóðberg

vara þinna

lof mér síðan finna

flauelslíkama þinn

Sama ár fjallaði Hrefna Haraldsdóttir um sömu bók í kvennablaðinu Veru og segir m.a.:

„Höfundi tekst oft vel að koma til skila andstæðum ástarinnar; sárum vonbrigðum og mikilli gleði. Lesandi fylgir ljóðmælanda, sem er kona, í gegnum átakamikið tímabil ævi hennar, allt frá unaðsstundum tilhugalifsins til þrúgandi sambands sem hún að lokum bindur enda á og öðlast þannig svigrúm til að vera hún sjálf“. 

Um Ljóðlýst frá 1997 segir Skafti Þ. Halldórsson í Morgunblaðinu:

„Ljóðmál Hallfríðar er ríkt af náttúrumyndum, kjarnmikið og sækir galdur sinn að nokkru í eddustef. Á stundum er textinn óræður en aldrei tyrfinn. Þótt bygging verksins gangi að mestu leyti upp er hún dálítið margbrotin og það er kannski helsti galli verksins því að efnið er í sjálfu sér þess eðlis að það kallar á einfalda byggingu. I heildina tekið er þó hér á ferðinni ágætlega frambærilegt verk þar sem tekist er af alvöru á við innri leit og kenndir.“

Hallfríður sendi frá sér stelpuunglingabók árið 2000 og var þá spurð í viðtali við Morgunblaðið: Hver er staða unglingabókahöfunda í dag?

„Ætlastu til að ég svari einhverju gáfulegu núna? Og hvernig á ég að geta það með mína fyrstu unglingabók? Kannski þú spyrjir mig seinna þegar ég verð búin að skrifa bókina sem vinkonur sonar míns, gelgjunnar á heimilinu, hafa skorað á mig að skrifa: bók um strák! En þessar stelpur reyndust mér mjög hjálplegar í yfirlestri. En, jæja, ég held ég geti sagt að mér finnist þessi vettvangur, unglingabókmenntir, vera óplægður akur og lesendahópur hans vanmetinn. Ég vildi skora á höfunda að skrifa meira fyrir yngri kynslóðina og gera kröfu til sjálfra sín um leið. Einnig mætti fara að líta á þessa tegund bókmennta sem alvöru bókmenntir. Þegar þú færð krakka á þessum aldri til að lesa hætta þeir ekki svo glatt. Það sem við þurfum að berjast við í dag er almennt ólæsi, krakkar lesa ekki annað en það sem þeim er sett fyrir í skólanum og stundum varla það. Þessu mætti og verður að breyta. Allir krakkar ættu að lesa að lágmarki tuttugu bækur á ári, ekki bara bókaormarnir," segir Hallfríður að lokum.“


Ritaskrá

  • 2007 Tíminn er eins og vatnið. Íslensk bókmenntasaga 20. aldar (með Brynju Baldursdóttur)
  • 2001 Orðagaldur. Kennslubók í íslensku (með Brynju Baldursdóttur)
  • 2000 Fingurkossar frá Iðunni
  • 1998  Pési og verndarenglarnir
  • 1997  Ljóðlýst
  • 1995  Hvað nú? Samlestrarbók handa foreldrum og börnum
  • 1992  Á undarlegri strönd
  • 1991  Í skini brámána
  • 1991 Stattu vörð um hreina jörð (með Aðalbjörgu Helgadóttur)