SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Hólmfríður Indriðadóttir

Hólmfríður var fædd á Grænavatni í Mývatnssveit árið 1802 en ólst upp í Baldursheimi og á Þverá í Reykjahverfi þar sem foreldrar hennar bjuggu. Þótt þau væru bjargálna mun Hólmfríður ekki hafa notið annarrar uppfræðslu en í lestri og barnalærdómi. Hún mun hins vegar hafa lært að skrifa fullorðin.

Árið 1829 giftist Hólmfríður Jóni Jónssyni frá Hólmavaði í Aðaldal, þau voru fyrst í húsmennsku eins og þá tíðkaðist en þau bjuggu síðan lengst af á Hafralæk í sömu sveit við mikla fátækt. Þau eignuðust tíu börn en aðeins fimm náðu fullorðinsaldri. Hólmfríður lést 1885.

Ung orti Hólmfríður ásamt Sigurlaugu systur sinni rímnaflokka. Síðar á lífsleiðinni orti hún rímur um Parmes loðinbjörn, þrjár rímur um svokallaða Mirsa-vitran og aðrar út frá Blómsturvallasögu. Hún orti einnig mikið af tækifærisvísum.

Rímur um Mirsa-vitran bjó Úlfar Bragason til birtingar í 8. árgangi Sónar og fjallar um þær í grein á bls. 47–52. Ekki er vitað hvaðan textinn um Mirsa kemur sem ort er út frá eða hvernig hann rak á fjörur Hólmfríðar norður í land.

Í grein Úlfars segir m.a. að Hólmfríður hafi kunnað feiknin öll af kvæðum og versum og Paradísarmissi í íslenskri þýðingu Jóns á Bægisá utan bókar. 

Sjá nánar um Hólmfríði og kveðskap hennar hér.

 


Ritaskrá

  • Án ártals, Rímur af Mirsa-vitran, birt í Són, tímariti um óðfræði,  8. hefti 2010, bls. 53-69