SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Lárusdóttir

Guðrún Lárusdóttir var fædd 8. janúar 1880 á Valþjófsstað í Fljótsdal en flutti fimm ára gömul til Reyðarfjarðar þar sem faðir hennar var prestur fríkirkjusafnaðarins. 1899 flutti fjölskyldan síðan til Reykjavíkur þar sem Guðrún bjó til dauðadags. 1902 giftist Guðrún Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni, kennara, rithöfundi og síðar presti og stofnanda elliheimilisins Grundar. Þau eignuðust tíu börn, sjö þeirra komust á fullorðinsár.

Guðrún fór að skrifa strax á barnsaldri. Hún var þriðja í hópi sex systkina sem hlutu enga formlega menntun en fengu kennslu heima. Ljóst er að hún var hvött til að skrifa og á æskuheimilinu var mikill áhugi á bókmenntum, menningarmálum, félagsmálum og trúmálum. Um fermingaraldur gaf Guðrún út handskrifað blað sem gekk á milli bæja á æskustöðvum hennar á Austfjörðum. Í blaðið skrifaði hún um kvenfrelsismál, bindindismál, trúmál og fleira. Hún var ekki nema 18 ára þegar hún þýddi tvö bókmenntaverk (með aðstoð föður síns segir sagan): Kofa Tómasar frænda og Spádóma frelsarans. Áður höfðu þýðingar hennar á smásögum birst í tímaritum, m.a. kvennatímaritinu Framsókn.

Auk heimilisstarfa og ritstarfa stundaði Guðrún lengst af fulla vinnu utan heimilis. Flest störf hennar lutu að félags- og mannúðarmálum, bindindis- og trúmálum. Hún sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912-18, var í ótal félagasamtökum og nefndum, m.a. í fátækranefnd 1912-22. Hún var skipuð fátækrafulltrúi 1930 og gegndi því embætti til dauðadags. Guðrún sat á alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1931 til dauðadags. Hún var önnur íslenska konan sem kosin var á þing.

Guðrún Lárusdóttir var afkastamikill rithöfundur. Líklega hefur það létt undir með henni að hún hafði alltaf vinnukonur, eins og algengt var á efnaheimilum á þessum tíma. Söguefni hennar eru nátengd lífsskoðunum hennar og skipa trúmál og bindindismál stóran sess. Söguhetjurnar eru gjarnan úr hópi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu, fátæklingar og drykkjumenn. Guðrún hefur djúpa samúð með lítilmagnanum en boðskapur hennar um lausn á vanda fátæklinganna er einfaldur, trúin á Guð leysi flestan vanda, með aðstoð góðhjartaðra manna. Hún setur kjör fátæklinga ekki í pólitískt eða félagslegt samhengi í skáldverkum sínum. Það er þó ljóst að í daglega lífinu hafði Guðrún meiri yfirsýn en fram kemur í verkum hennar, til að mynda barðist hún fyrir stofnun heimila fyrir drykkjumenn og fyrir þroskahefta, auk þess sem hún beitti sér fyrir aukinni aðstoð við fátæka. Víða má sjá kvennasjónarmið í skáldskap Guðrúnar.

Verk Guðrúnar voru vinsæl á fyrri hluta tuttugustu aldar og nokkrar sagna hennar voru þýddar á dönsku og færeysku. Lárus Sigurbjörnsson snéri skáldsögu hennar Á heimleið í sjónleik, sem kom út á bók 1939, og 1940 var hann settur á svið í Þórshöfn í Færeyjum.

Guðrún lést, ásamt tveimur dætrum sínum, í hörmulegu bílslysi, 20. ágúst 1938. Bíll sem þær voru farþegar í lenti út í Tungufljóti og drukkuðu þær þrjár, en bæði bílstjórinn og eiginmaður Guðrúnar komust af. Þetta var eitt fyrsta og alvarlegasta bílslys á Íslandi.

Sýn­ing um Guð­rún­u var haldin í Þjóðarbókhlöðu 2018 til að heiðra minn­ingu og arf­leifð hennar.

Mynd af Guðrúnu er tekin af vef alþingis.


Ritaskrá

  • 2009  Bréf Guðrúnar Lárusdóttur til móður sinnar 1900-1934
  • 1966  Smásögur 1932-35
  • 1949  Allt fyrir Krist 
  • 1949  Bræðurnir 
  • 1949  Fátækt
  • 1949  Gamla húsið 
  • 1949  Hvar er bróðir þinn? 
  • 1949  Ritsafn I-IV (yfir 1600 bls., en þó ekki öll verk hennar)
  • 1938  Systurnar
  • 1938  Sólargeislinn hans og fleiri sögur handa börnum og unglingum
  • 1932  Þess bera menn sár 
  • 1922  Brúðargjöfin
  • 1918  Tvær smásögur, 1918 (kom út á færeysku 1957)
  • 1917  Sigur
  • 1913  Á heimleið (kom út á dönsku 1916)
  • 1912  Sönn jólagleði
  • 1906  Fermingargjöfin
  • 1905  Sólargeislinn hans
  • 1903-1905 Ljós og skuggar I-III (smásögur)

Þýðingar

  • 1932  Móðir og barn (endursamin úr sænsku, höfundar ekki getið).
  • 1919  Sögur Topeliusar (hluti)
  • 1901  Tómas frændi eftir Harriet B. Stowe
  • 1900  Spádómar frelsarans eftir J. G. Matteson

Tengt efni