SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ólafía Jóhannsdóttir

Ólafía Jóhannsdóttir fæddist 22. október 1863 að Mosfelli í Mosfellssveit. Foreldrar hennar voru séra Jóhann K. Benediktsson og Ragnheiður Sveinsdóttir.

Tveggja ára gömul fór Ólafía í fóstur til Stephensenshjónanna eldri í Viðey og var hún hjá þeim langt fram á fimmta árið. Upp frá því ólst hún upp í Reykjavík, hjá móðursystur sinni Þorbjörgu Sveinsdóttur, ljósmóður, og ömmu sinni, Kristínu Jónsdóttur.

Ólafía naut mikils frelsis í uppeldinu og varð snemma sjálfstæð í hugsun og skoðunum. Hún gekk þrjá vetur í Barnaskólann í Reykjavík og veturinn eftir að hún fermdist settist hún í Kvennaskólann. Ári síðar sagði hún sig úr skóla og er talið að ástæða úrsagnarinnar hafi verið sú að henni hafi ekki líkað strangleikinn í skólahaldinu. Síðar las Ólafía utanskóla til prófs úr fjórða bekk Latínuskólans því stúlkur höfðu ekki heimild til að sitja í skólanum. Prófið tók hún vorið 1890 og sótti um að fá að taka stúdentspróf ári síðar. Því var hafnað á þeirri forsendu að tveir vetur skyldu líða á milli fjórða-bekkjarprófsins og stúdentsprófsins. Ólafía taldi sig tilbúna til að taka lokaprófið og sætti sig ekki við þessi málalok og hætti frekara námi við Latínuskólann.

Á árunum 1888-1902 starfaði Ólafía sem kennari, fyrst í Flatey á Breiðafirði, síðar í Reykjavík við barnaskólann og Kvennaskólann. Hún hafði mikinn áhuga á að koma á fót menntastofnun fyrir konur og fór utan haustið 1892 til að kynna sér slíkar stofnanir.

Kvenréttindamál tóku snemma huga Ólafar og þegar Hið íslenska kvenfélag var stofnað 1894 gekk hún í það og ásamt fóstru sinni, Þorbjörgu, starfaði hún ötullega innan þess. Félagið var upphaflega stofnað til að beita sér fyrir stofnun háskóla á Íslandi en einnig hafði það aukin réttindi kvenna á stefnuskrá sinni.

Ólafía var ritstjóri Ársrits Hins íslenska kvenfélags á árunum 1895-1899 og skrifaði margar greinar í ritið. 1899-1900 ritstýrði hún barnablaðinu Æskunni og ásamt Jarþrúði Jónsdóttur ritstýrði hún kvennatímaritinu Framsókn 1899-1901.

Árið 1895 beitti Ólafía sér fyrir stofnun Hvítabands-félags á Íslandi og var kjörin formaður þess. Hún ferðast víða um land, sem og um Bandaríkin og Kanada, á vegum Hvítabandsins og hélt fyrirlestra. Í upphafi tuttugustu aldar tók Ólafía að flytja opinbera fyrirlestra um trúmál og bindindismál. Hún hafði verið trúuð frá barnsaldri en á árunum 1903-1906 varð hún fyrir svo sterkri trúarlegri upplifun að hún ákveður að helga trúnni líf sitt og starf upp frá því. Á þeim árum lá Ólafía veik á heimili formanns Hvítabandsins í Ytterö í Noregi. Þegar hún komst aftur til heilsu fór hún til Oslóar (þá Kristjaníu) og hóf þar störf á vegum Hvítabandssamtakanna sem fólust aðallega í því að sinna utangarðskonum á sjúkrahúsum og í fangelsum. Árið 1912 kom hún á fót heimili fyrir utangarðsfólks og veitti því forstöðu til ársins 1915 en þá tók heilsu hennar að hraka á ný.

Ólafía flutti aftur til Íslands 1921 og bjó í þrjú ár hjá ýmsu vinafólki en var mjög farin að heilsu mestallan tímann. Árið 1924 hresstist hún og ákvað að halda aftur til Noregs. Hún sigldi frá Íslandi 21. janúar 1924 en lést 21. júní sama ár. Veglegur bautasteinn var reistur á gröf Ólafar í Reykjavík og í Óslo var reist af henni stytta sem afhjúpuð var 1930.

Sjálfsævisaga Ólafar, Frá myrkri til ljóss, er fyrsta birta sjálfsævisaga íslenskrar konu og kom út árið 1925. Um hana má lesa í bók Ragnhildar Richter: Lafað í röndinni á mannfélaginu. Um sjálfsævisögur kvenna (1997). Tæpum áratug áður hafði Ólafía gefið út í Noregi safn frásagna undir titilinum De ulykkeligste sem vakti gríðarlega athygli og var oft endurtúgefið og þýtt á ensku og gefið út í Kanada. Á íslensku kom bókin út undir titlinum Aumastar allra 1923 og er einstætt verk í íslenskri bókmenntasögu. Þar eru sagðar sögur af „föllnum“ konum; vændiskonum, afbrotakonum, konum sem gista stræti og fangelsi, konum sem þjást af sárasótt og öðrum afleiðingum fátæktar og eymdar.

Frásagnir Ólafíu er hispurslausar, færðar í listrænan búning, samtöl og atburðir dramatíseraðir, þ.e.a.s. færðar í skáldskaparbúning þó efniviðurinn sé byggður á reynslu Ólafíu á hjálparstarfi í Noregi. Nefna má söguna „Vonda veikin“ sem segir harmsögu konu sem er tæld og svikin af illa innrættum karlmanni sem smitar hana af sárasótt, vondu veikinni. Lýst er í smáatriðum líkamlegum og andlegum þjáningum hinnar sýktu og einnig gerir höfundur skil hinni félagslegu útskúfun sem fylgir í kjölfarið. Sagan hlýtur að teljast einsdæmi í íslenskum bókmenntum og hefur vafalaust verið ögrandi á þeim tíma sem hún er skrifuð þegar ekki mátti skrifa um kynlíf í bókmenntum, hvað þá kynsjúkdóma. Þetta er í anda þeirrar skoðunar Ólafíu að samhjálp sé borgaraleg skylda allra manna en hún skrifar:

„Hinir glötuðu eru sjúkir limir á líkama þjóðfélagsins. En þegar svo er komið, þá er fyrir hendi hætta á smitun alls líkamans, - hætta á að þjóðfélagið allt sýkist“.

Heimildir

  • Bjarni Benediktsson. „Ólafía Jóhannsdóttir.“ Formáli að Ólafía Jóhannsdóttir. Rit I-II. Reykjavík: Hlaðbúð 1957
  • Björg Einarsdóttir. „Boðberi kærleikans.“ Úr ævi og starfi íslenskra kvenna, I. bindi. Reykjavík. 1984
  • Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Ólafía. Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur. Reykjavík.  JPV 2006
  • Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík. Mál og menning 1987

Ritaskrá

  • 1957  Rit I-II
  • 1926  The Waiting shadow, Toranto
  • 1925  Frá myrkri til ljóss. Endurminningar
  • 1923  Aumastar allra. Myndir frá skuggahlið Kristíaníu
  • 1923  Utdrag av breve fra Søster Olafia Johannsdotter (ritstj. Louise Salvesen)
  • 1916  De ulykkeligste, livsskildringer fra Kristiania/Oslo (endurútgefin 1920 og 1947)
  • 1908  Daglegt ljós. Orð frá drottni fyrir hvern dag í árinu