SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ólína Andrésdóttir

Ólína Andrésdóttir, tvíburasystir Herdísar Andrésdóttur, er fædd í Flatey á Breiðafirði 13. júní 1858. Þriggja ára gömul missti hún föður sinn þegar báturinn Snarfari fórst með allri áhöfn. Þar sem systkinahópurinn var stór var Herdís send í fóstur og ólust þær systur því ekki upp saman. Ólína átti ekki kost á skólagöngu, en var sjálfmenntuð. Hún giftist ekki, en eignaðist eina dóttur. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 19. júlí 1935.

Leiðir systranna lágu ekki saman fyrr en í Reykjavík þegar þær voru komnar um sextugt. Saman urðu þær þjóðkunnar fyrir kvæði sín, frásagnargáfu og fróðleik. Ólína orti meira en Herdís og varð sérstaklega þekkt fyrir þulur sínar. Þær og Theodora Thoroddsen voru systkinadætur og umgengust mikið í Reykjavík. Þær voru mjög virkar í Lestrarfélagi kvenna Reykjavíkur og birtu kvæði og frásagnir í Mánaðarriti þess. Árið 1924 gáfu þær út Ljóðmæli á eigin kostnað, og aðra útgáfu aukna 1930. Að þeim látnum safnaði dóttursonur Herdísar, séra Jón Thorarensen, saman óbirtum kvæðum þeirra. Voru þau prentuð í þriðju útgáfu ljóðmælanna sem kom út stóraukin árið 1976. Alls hafa ljóðmæli þeirra systra komið út fimm sinnum.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Ólína Andrésdóttir“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, bls. 150.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin er fengin af bloggsíðu Ellu, afkomanda Herdísar sjá hér.


Ritaskrá

  • 1976 Ljóðmæli
  • 1930 Ljóðmæli
  • 1924 Ljóðmæli

Tengt efni