SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ásdís Jóhannsdóttir

Ásdís Jóhannsdóttir fæddist á Kirkjubóli í Fáskrúðsfirði 10. janúar 1933 en flutti 12 ára gömul með foreldrum sínum til Hveragerðis þar sem hún átti heima upp frá því.

Ásdís varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1953. Sama ár hóf hún efnafræðinám víð háskólann í Göttingen, og stundaði það óslitið til haustsins 1958, er hún hlaut námsstyrk frá háskólanum í Darmstad. Þar hélt hún náminu áfram en lést í Darmstadt 21. október 1959, aðeins 26 ára að aldri.

Hún varð öllum harmdauði er til hennar þekktu. „Ásdís bar hag lands síns mjög fyrir brjósti og miðaði nám sitt við það að verða nýtur þegn. Hún hefði án efa lagt þjóðinni til sinn skerf á sviði vísinda“, segir m.a. í minningargrein um hana í Morgunblaðinu, 17. nóvember 1959.

Um Ásdísi var skrifað í Þjóðviljanum 4. nóvember 1959: „Hún stundaði störf sín af alvöru og vandvirkni. í gleðskap var hún einnig með og kryddaði þá samkvæmi okkar með forkunnar góðum yrkingum. Jafnvel heil kvæði sem ég held hún hafi ort á stundinni og án undirbúnings. Varð ekki talið til alvarlegs skáldskapar a.ð vísu og ekki ætlast til þess. Ég held að fleirum en mér hafi dottið í hug: Nú mega hinir hagyrðingarnir hætta að yrkja.“

Ekki kemur fram hver dánarorsök hennar var.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gaf út ljóð Ásdísar á bók árið 2002. Sigrún Björnsdóttir skrifaði eftirfarandi um bókina á vefinn Ljóð.is

„Að mörgu leyti er bókin Vængjaþytur vorsins forvitnileg kvennasöguleg heimild. Hún er gluggi inn í sálarlíf ungrar fjölhæfrar konu sem lagði upp í lífið í árdaga lýðveldisins og voru allir vegir færir vegna góðrar greindar. Hún valdi sér vettvang raunvísinda, sem teljast verður óvanalegt á þessum tíma, en bjó yfir mikilli tjáningarþörf og geðríki sem leitaði stöðugt útrásar. Það skilar sér vel í ljóðunum hversu sterka nærveru hún hefur haft og eins að hún hefur átt afar viðkvæman streng í sálinni. Bókin er líka heimild um formtilraunir og tíðaranda - hér birtist okkur menntakona úr fortíðinni með ríka skáldæð, en dæmigerða kvenlega hógværð-  jafnvel bælingu fyrir því sem er henni dýrast.“

Í Kvennasögusafni eru gögn úr eigu Ásdísar, m.a. dagbók, sem bíða rannsóknar.

 


Ritaskrá

  • 2002  Vængjaþytur vorsins