SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. apríl 2024

KYNLEGT STRÍÐ

Næstkomandi mánudag verður boðið upp á afar fróðlegt fræðakaffi í Borgarbókasafninu í Spönginni. Þar fjallar Bára Baldursdóttir sagnfræðingur um bók sína Kynlegt stríð sem kom út fyrir síðustu jól og geymir rannsóknir hennar á samneyti íslenskra kvenna og hermannanna.
 
Kynlegt stríð var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis og fjallar, sem fyrr segir, um svonefnt ástand en á hernámsárunum hafði margur miklar áhyggjur af þessum samgangi íslenskra kvenna og breskra og bandarískra hermanna.
 
Yfirvöld njósnuðu um mikinn fjölda stúlkna og fullveðja kvenna sem taldar voru ógna íslenskri menningu og þjóðerni. Umfang njósnanna og hversu langt var gengið í þeim á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu. Í kjölfar umdeildra bráðabirgðalaga var Ungmennadómur settur á fót sem dæmdi stúlkur til sveitar- eða hælisvistar. Stofnað var hæli á Kleppjárnsreykjum þar sem stúlkur voru vistaðar mót vilja sínum til að bæta siðferðisvitund þeirra. Saga þeirra er hér reifuð frá ýmsum sjónarhornum og byggir að hluta á dagbók hælisins á Kleppjárnsreykjum.
 
Fræðakaffið stendur í klukkustund, frá kl. 16:30-17:30 og veitir Sigríður Stephensen, sérfræðingur, nánari upplýsingar:
sigridur.stephensen@reykjavik.is | 411 6230

Tengt efni